Ágrip úr skýrslunni
Frá hámarki sumarhlýinda á landinu, eftir að síðasta jökulskeiði lauk, fór að kólna fyrir um 6–8 þúsund árum. Kaldast var við lok 19. aldar.
Verulega hefur hlýnað frá upphafi 20. aldar og er hlýnunin um 1,0 °C á öld, miðað við tímabilið 1900 til 2020, meiri að vetri (1,4 °C/100 ár) og minni að sumri (0,7 °C/100 ár). Úrkoma hefur aukist og aftakaúrkoma hefur valdið bæði flóðum og skriðuföllum.
Norður-Atlantshaf hefur hlýnað verulega á síðustu áratugum en talsverðar sveiflur eru í sjávarhita umhverfis landið. Á fyrsta áratug þessarar aldar varð markverð kólnun suðvestur af landinu en hennar gætir ekki lengur.
Jöklar á Íslandi hafa minnkað um 19% að flatarmáli frá þeim tíma sem þeir náðu mestri útbreiðslu í lok 19. aldar. Nokkrir jöklar hafa horfið og vegna hörfunar jökla stækka jaðarlón og ný myndast.
Útreikningar, byggðir á sviðsmyndum um loftslagsbreytingar, benda til þess að haldi Parísarsamningurinn muni rýrnun jökla á Íslandi samt verða um 40–50%. Rýrnun jökla verður meiri takist ekki að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Parísarsamningsins.
Sjávarstöðubreytingar við Ísland munu ráðast af landhæðarbreytingum, hlýnun hafsins og massatapi ísbreiðanna á Suðurskautslandinu og Grænlandi. Mikil óvissa er um þróun ísbreiðunnar á Suðurskautslandinu, sérstaklega eftir aldamótin 2100.
Til aldamóta gæti afstæð sjávarstaða hækkað um allt að 1,2 m, þar sem landsig er hvað mest. Á svæðum, þar sem landris er mest, getur afstæð sjávarstaða fallið um 1,5 m.
Mikil óvissa ríkir um þróun hnattrænnar sjávarstöðu og sjávarstöðu í kringum Ísland eftir 2100. Ítrustu mörk verstu sviðsmyndar sýna margra metra hækkun árið 2150, en miðgildi hækkunar er á bilinu 1–2 m hér við land og víða undir einum metra.
Sjávarstöðubreytingar munu halda áfram öldum saman jafnvel þó að náist að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Skipulagsákvarðanir sem teknar eru nú á dögum munu hafa áhrif á byggð og innviði í nokkur hundruð ár.
Mynd 1: Þróun meðalhita á Íslandi frá aldamótunum 1900. Myndin byggir á meðaltölum hvers áratugar og sýnd eru vik frá meðaltali áranna 1981–2010. Myndin sýnir gögn frá sjö stöðvum víðsvegarum landið, þ.e. Reykjavík, Stykkishólmi, Akureyri, Grímsey, Stórhöfða, Teigarhorni og Hæli/Árnesi. Þessar stöðvar voru í rekstri allt tímabilið.
Gögn um fornveðurfar á Íslandi falla í megindráttum að veðurfarssögu á norðurhveli. Frá því síðasta jökulskeiði lauk, fyrir um tíu þúsund árum, voru mestu sumarhlýindin á tímabilinu fyrir 6–8 þúsund árum. Síðan skiptust á óregluleg hlýrri og kaldari tímabil en í heildina kólnaði og kaldast varð í lok 19. aldar. Veðurmælingar sýna að verulega hefur hlýnað frá upphafi 20. aldar og er hlýnunin um 1,0 °C á öld miðað við tímabilið 1900 til 2020, meiri að vetri (1,4 °C/100 ár) og minni að sumri (0,7 °C/100 ár). Hlýnunin var ekki órofa, hlýskeið var um miðbik aldarinnar, kuldakast náði hámarki í lok 8. áratugarins og um miðbik þess 10. fór að hlýna ákaft (sjá mynd 1).
Síðustu ár hefur hægt á þessari hlýnun en miðað við síðustu öld er hlýtt á landinu. Meðalhiti áratuga á 21. öld er rúmlega 0,4 °C hærri en þegar hlýjast var á síðustu öld. Þá hafa óvenjuhlý sumur slegið hitamet á nokkrum veðurstöðvum. Sem dæmi má nefna að sumarið 2021 var það hlýjasta frá upphafi mælinga á Akureyri, Egilsstöðum, Dalatanga og Grímsstöðum á Fjöllum. Eins hafa óvenjulegar sveiflur í hita einkennt mánaðarmeðaltöl síðustu ár. Til dæmis var nóvember 2022 óvenjuhlýr en desember sama ár sá kaldasti á landinu síðan 1973, sums staðar sá kaldasti í 100 ár eða meira. Sambærilegar sveiflur í hitastigi hafa þó orðið á kuldaskeiðum.
Úrkoma á Íslandi hefur aukist eftir aldamótin og er meðalársúrkoma á landinu um 5–10% meiri en fyrir þau. Þó aukning sé í hámarksúrkomu hvers árs eru þau gögn mjög sveiflukennd og leitnin er ekki marktæk. Á síðustu árum hafa orðið nokkur skyndiflóð vegna úrhellisrigningar í brattlendi við byggð. Auk þess hafa orðið alvarleg flóð og skriðuföll vegna óvenju mikillar úrkomu sem hefur varað nokkra daga. Þannig var uppsöfnuð úrkoma á Seyðisfirði, dagana 14.–18. desember 2020, samtals 569,9 mm, sem er það mesta sem mælst hefur hér á landi. Óvenju hlýtt var þessa daga og því féll þessi úrkoma sem rigning. Afleiðingarnar voru mestu skriðuföll í sögu Seyðisfjarðarbyggðar.
Flóð ráðast m.a. af úrkomuákefð, uppsöfnun úrkomu, hlutfalli snævar í úrkomu, leysingu og snjósöfnun. Hlýnun hefur áhrif á ýmsar tímasetningar, t.d. upphaf leysinga og vorflóða og aukin úrkoma og hlýindi að vetri geta aukið tíðni flóða yfir haust og vetrarmánuði, en fækkað þeim að vori og að sumarlagi. Útreikningar byggðir á niðurstöðum loftslagslíkana benda til þess að stærð og tíðni flóða geti aukist á næstu áratugum. Þá eykur þiðnun sífrera hættu á skriðuföllum.
Norður-Atlantshaf hefur hlýnað verulega á síðustu áratugum, en talsverðar sveiflur eru í sjávarhita umhverfis landið. Markverð kólnun, sem varð á hafsvæði suðvestur af landinu á öðrum áratug þessarar aldar, er nú ekki sýnileg lengur. Veltihringrás Atlantshafsins (AMOC) hefur verið frekar stöðug síðustu ár en vísindalegar niðurstöður um langtíma stöðugleika hennar eru ekki samhljóma. Rannsóknir hafa bent til að styrkur veltihringrásarinnar muni dragast saman á öldinni en ólíklegt hefur verið talið að hún stöðvist. Nýjar rannsóknir hafa þó dregið úr vissu þess mats. Minnki styrkur veltihringrásarinnar mikið mun það hafa kælandi áhrif á hafsvæðinu umhverfis Ísland, en það er nú um 2–3 °C hlýrra en yfirborð sjávar á sömu breiddargráðu í Kyrrahafinu.
Mynd 2: Skaftafellsjökull og Svínafellsjökull 1920–1925 (ljósmynd: Ólafur Magnússon) og 2012 (ljósmynd: Aron Reynisson), jöklarnir slitnuðu hvor frá öðrum í kringum 1940. Við hörfun jökla hafa árfarvegir tekið miklum breytingum eins og rætt er í kafla tvö.
Jöklar á Íslandi hafa minnkað um 19% að flatarmáli frá þeim tíma sem þeir náðu mestri útbreiðslu undir lok 19. aldar. Heldur hefur hægt á rýrnun þeirra eftir 2010. Nokkrir jöklar hafa horfið alveg og vegna hörfunar jökla stækka jaðarlón og ný myndast. Framtíð jökla landsins er mjög háð þróun loftslags og sjávarhita umhverfis landið. Útreikningar byggðir á sviðsmyndum um loftslagsbreytingar benda til þess að haldi Parísarsamningurinn muni rýrnun þeirra samt verða um 40–50%. Rýrnun jökla verður meiri takist ekki að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Parísarsamninginn.
Sjávarstöðubreytingar við Ísland munu ráðast af hlýnun hafsins og rýrnun ísbreiðanna á Suðurskautslandinu og Grænlandi, auk landhæðarbreytinga á Íslandi. Breytingar á þyngdarsviði jarðar valda því að massatap Grænlandsjökuls hækkar ekki sjávarstöðu við Ísland, en massatap ísbreiðunnar á Suðurskautinu gerir það. Þar er mikil óvissa um þróun massataps, sérstaklega eftir aldamótin 2100. Landhæðarbreytingar eru verulegar, útbreitt landris er um miðbik landsins og við suðausturströndina vegna rýrnunar íslenskra jökla en landsig við suðvestan- og vestanvert landið.
Mat á sjávarstöðubreytingum til aldamóta sýnir að afstæð sjávarstaða gæti hækkað um allt að 1,2 m þar sem landsig er hvað mest. Á þeim svæðum við suðausturströndina, þar sem landris er umtalsvert, getur afstæð sjávarstaða fallið um 1,5 metra. Mikil óvissa ríkir um þróun hnattrænnar sjávarstöðu og sjávarstöðu í kringum Ísland eftir 2100. Ítrustu mörk verstu sviðsmyndar sýna margra metra hækkun árið 2150, en miðgildi hækkunar er á bilinu 1–2 m hér við land og víða undir einum metra.
Sjávarstöðubreytingar munu halda áfram öldum saman jafnvel þó að náist að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Skipulagsákvarðanir sem teknar eru nú á dögum munu hafa áhrif á byggð og innviði í nokkur hundruð ár. Þess vegna þarf að taka tillit til komandi sjávarstöðubreytinga á þessari öld, og þeirri næstu, við skipulagsákvarðanir.
ALLUR KAFLINN Í SKÝRSLUNNI
Náttúrufar
Veðurmælingar sýna að verulega hefur hlýnað frá upphafi 20. aldar og er hlýnunin um 1,0 °C á öld miðað við tímabilið 1900 til 2020, meiri að vetri (1,4 °C/100 ár) og minni að sumri (0,7 °C/100 ár). Hlýnunin var ekki órofa, hlýskeið var um miðbik aldarinnar, kuldakast náði hámarki í lok 8. áratugarins og um miðbik þess 10. fór að hlýna ákaft
© Veðurstofa Íslands 2023
Bústaðavegi 7-9
105 Reykjavík
Kt. 630908-0350
Sími: 552-6000